Ökukennarinn

1. nóvember 1971 var ég ráðinn til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík. Að loknu grunnnámi hóf ég störf við almenna löggæslu fram í apríl 1972, að ég sótti námskeið í akstri bifhjóla og eftir það fluttist ég til starfa í umferðardeild embættisins þar sem ég starfaði við umferðarlöggæslu, allt fram til 15. desember 1983, að ég var skipaður rannsóknarlögreglumaður við embættið og hóf þá störf við rannsóknir fíkniefnamála í ávana og fíkniefnadeild. Frá þeim tíma hef ég starfað í ýmsum deildum við rannsóknir og rannsóknarstjórnun, m.a. hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins en er í dag hættur störfum.

Ég lauk ökukennaraprófi í janúar 1976 og hef haft mikil og nánast óslitin afskipti af ökukennslu frá þeim tíma og kennt bæði á bíl og bifhjól, eða fram til ársins 2003, að ég hætti almennri kennslu á bifhjól og snéri mér eingöngu að þjálfun lögreglumanna í bifhjólaakstri.

Þá kenndi ég umferðarfræði við Ökuskóla Íslands h/f. Í febrúar 1995 lauk ég námskeiði í umferðarsálfræði frá Kennaraháskóla Íslands og í maí 2003 lauk ég námskeiði hjá Umferðarstofu fyrir ökukennara, til að gefa út akstursmat.

Frá árinum 1995 til 2015 kom ég að akstursþjálfun nema við lögregluskóla ríkisins, bæði í góðakstri sem og í neyðarakstri, ásamt því að kenna umferðarsálfræði við skólann. Undanfarin ár hef ég komið að þjálfun lögreglumanna í forgangsakstri og við akstur bifhjóla, bæði við embætti LRH, sem og nýliðanámskeið á vegum Lögregluskóla ríkisins.