Bílprófið
Hægt er að taka skriflega ökuprófið allt að 2 mánuðum fyrir 17 ára afmælið en gott er þó að hafa náð ágætri leikni í æfingaakstrinum áður. Áður en skriflega ökuprófið er tekið þarf að ljúka Ökuskóla (Ö2) og Ökuskóla (Ö3), en áður en farið er í (Ö3) þarf að ljúkla 12 ökutímum. Skriflegt próf er pantað hjá Frumherja á Hesthálsi 6-8 í síma 570-9070.
Mikilvægt er að vera vel undirbúin(n) fyrir prófið sem er krossapróf og hefur það reynst sumum ökunemum snúið. Hér gildir bara að undirbúa sig vel og ná sem bestri útkomu!
Að þessu loknu er pantað verklega prófið í samráði við ökukennarann og síðustu ökutímarnir teknir. Verklegaprófið má taka viku fyrir 17 ára afmælisdaginn, en ökuréttindin taka aldrei gildi fyrr en á afmælisdaginn.
Ökuskóli 3 er ný gerð af ökuskóla, sem felur í sér bóklega kennslu og verklega þjálfun á lokuðu ökusvæði, þar sem nemandinn æfir t.d. viðbrögð í hálku og margt fleira í tengslum við akstur við erfið skilyrði. Að öllu þessu loknu er náminu lokið með verklega prófinu, sem jafnframt er munnlegt en í þeim hluta getur verið spurt út í stjórntæki bifreiðarinnar, öryggisbúnað ofl.
Eftir að ökuneminn hefur staðist prófið, með glans að sjálfsögðu, fæst útgefið bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í 3 ár. Hins vegar eftir farsælan akstur í eitt ár, er hægt að sækja um fullnaðarökuskírteini, að undangengnu akstursmati, sem fram fer hjá ökukennara. Annars er sótt um fullnaðarskírteinið eftir þrjú ár, en alltaf þarf fyrst að fara í ökumat.